Færsluflokkur: Bloggar

Loksins með eigin nettengingu.

Þá eru heimilið loksins orðið nettengt. Það tók þrjár vikur að fá tenginguna, þrátt fyrir að ég hafi sjálfur sett hana upp. Hef síðustu 4 vikur setið úti í eldhúsglugga, að stela bandvídd frá nágrönnum, til að geta athugað póstinn minn. Hef þar af leiðandi ekki nennt að blogga mikið þar sem vinnuaðstaðan í glugganum er takmörkuð.

Fjölskyldunni hefur tekist ágætlega að aðlagast lífinu hérna úti og erum að mestu búin að koma okkur fyrir í íbúðinni. Nýju IKEA húsgögnin eru amk öll komin saman.

Guðbjartur var í borginni í síðustu viku. Ég bauð honum í mat á föstdaginn og tók svo með honum smá pöbbarölt. Kom að sjálfsögðu við á Hvid´s Vinstue. Þegar inn var komið varð mér strax ljóst að óvenjumikið af íslendingum væru þar staddir. Innan úr yfirfullu reykingarherberginu bárust íslensk ættjarðarlög og andinn minnti einn helst á ættarmót. Í ljós kom að þarna voru starfsmenn Landbúnaðarvéla í útrásarhug. Við stoppuðum ekki lengi.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki sérlega ánægður með LÍN þessa dagana. Leit á lánsáætlunina sem er komin á "Svæðið mitt" hjá LÍN og fæ ekki betur séð en til standi að lána mér tæplega kr140.000 fyrir þetta skólaár. Þetta er uppihalds-, skólagjalda-, bóka- og ferðalán fyrir 9 mánuði í námi. Dugar ekki fyrir tveggja mánaða leigu.
Ef einhver veit um lausa stöðu við ritstörf þá má hinn sami láta mig vita. Pistlaskrif, gagnrýni, þýðingar, fréttaskrif eða annað slíkt er tilvalið.

Þetta er Ársæll Níelsson sem bloggar frá Kaupmannahöfn


Íbúðin afhent í gær

Í gær flutti ég út úr herberginu sem ég hef á leigu síðustu tvær vikur og inn í íbúðina. Mér tókst að koma saman svefnsófanum eftir nokkuð streð og svaf í honum. Rúmið er ennþá ósamsett þar sem mig vantar skrúfjárn til að pússla því saman. Þetta eru einu húsgögnin sem eru í íbúðinni enn sem komið er. Það verður svo farinn verslunarleiðangur í IKEA og RL húsgögn þegar Auður kemur út. Húseignadinn ætlar svo að vera svo elskulegur að lána mér sjónvarpð til afnota þar til sjónvarpið okkar kemur frá Íslandi. Það mun því vera ena afþreygingin sem ég hef í íbúðinni næstu daga því ég er búinn að lesa bókina sem ég tók með mér út og ég er ekki kominn með internetsamband (er núna í gamla herberginu að bíða eftir eigandanum til að skila af mér lyklunum).

Margir Danir virðast illa að sér í sögu og margir þeirra eru harðir á því að Ísland sé enn undir þeirra stjórn. Telja Ísland rekið á ölmusu frá Dönum.

 

  Þetta er Ársæll Níelsson sem bloggar frá Kaupmannahöfn


Sænska klámkynslóðin

Samkvæmt dönsku götublaði sem ég las um daginn þá ætla svíar að innleiða nýtt námsefni í grunskólum landsins. Frá og með þessari önn munu nemendur í 8. bekk og upp úr, vera með Pornografíu áfanga á námskrá sinni. Sænsk menntayfirvöld ákváðu að fara þessa leið til að kynna unglingana fyrir uppbyggingu klámefnis, tilgangi og því hversu mikið, eða lítið, klám tengist raunverulegu kynlífi. Haft er eftir talsmanni yfirvalda að: "klám er sífellt fyrir augunum á okkur og verður eilíft aðgengilegra fyrir börnin okkar. Í stað þess að þau horfi á þetta ein þá fá þau leiðsögn frá skólanum og þannig má forðast ranghugmyndir". Það skal þó tekið fram að grunnskólanemendur munu ekki sækja vídjó-tíma heldur verður námið alfarið bóklegt.
Þess má geta að Svíðþjóð, eitt af fyrstu löndum heims til að gera svo, höf að kenna kynfræðslu á grunnskólastigi. Í fyrstu sænsku kennslubók námsgreinarinnar, frá 1957, er varað við því að blanda saman dansi og áfengi.

   Þetta er Ársæll Níelsson sem bloggar frá Kaupmannahöfn

 


Vændiskonur og fíkniefnasalar

Já, hérna í litlu stórborginni er enginn skortur á ofantöldu. Ég þarf ósjaldan að leggja leið mína um Istedgaden þar sem einn af strætisvögnunum "mínum" stoppar þar og auk þess hef ég fundið krá á téðri götu sem mér líkar ágætlega. Á milli kráarinnar og miðbæjarins, þ.e. Hovedbanegaden og Radhuspladsen, er svo hin alræmdi götuhluti þar sem ógæfufólkið heldur sig. Þetta er einungis um 2-300 metra langur kafli sem varpar skugga á annars ljómandi skemmtilega og líflega götu sem spannar u.þ.b. 1,5 km vegalengd. Það er óhætt að segja að allar þær götumellur sem gatan hefur upp á að bjóða þessa dagana hafa boðið mér blíðu sína, sumar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, og eins hefur ósjaldan verið hvíslað að mér "Cola?", en þannig vekja salarnir athygli á vöru sinni og eru að vísa til kókaíns. Fíkniefnasalarnir eru þrátt fyrir allt mjög kureteisir og eru ekkert að abbast upp á mann, maður lætur bara sem maður hafi ekki heyrt hvíslið og heldur áfram göngu sinni. Vændiskonurnar eiga þó til að vera ákveðnari, lauma hendi um mitti manns og hendur, labba með manni áleiðis að hinum ósýnilegu landamærum undirmálsmenningar og hins viðurkennda næturlífs, á meðan þær hvísla fögrum fyrirheitum holdlegar nautnir í eyra manns. Um leið og komið er að "landamærunum" sleppa þær hinsvegar takinu og snúa sér að öðrum. Þess ber þó að geta að flestar láta segjast eftir fyrsta "Nei".

Frjálslega vaxna, þeldökka vinkona okkar Hauks hefur hinsvegar ekki sést. Reyndar kom að máli við mig frjálslega vaxin, miðaldra þeldökk vændiskona sem hugsanlega hefur verið móðir hinnar. Annars eru þær allar þeldökkar vændiskonurnar sem ég hef orðið var við, fyrir utan eina sem var frá mið-austurlöndum, ég geri ráð fyrir að faðir hennar og bræður séu ekki hlynntir ærumorðum.

        Þetta er Ársæll Níelsson sem bloggar frá Kaupmannahöfn.


Kominn til Kaupmannahafnar

Í tilefni þess að ég hef flust búferlum í okkar gömlu höfuðborg þá hef ég ákveðið að snúa aftur úr sjálfskipaðri útlegð úr bloggheimum, svo að vinir og vandamenn eigi betur með að fylgjast með mér.

Síðastliðinn laugardag, þann 30. ágúst, mætti ég á Leifstöð rétt upp úr 5 um morguninn. Auðvitað var haugur af liði á undan mér í röðinni þar sem Express beindi farþegum tveggja flugvéla í sömu röðina. Ég sniglaðist með röðinni í góðan hálftíma áður en komið var að mér (Rakst reyndar á Árna Grétar og Betu sem voru á leið til London og svo Ítalíu). Þegar ég svo fór í gegnum öryggishliðið var mér snúið við því ég var með of mikinn vökva í handfarangrinum (bölvað krullu-sjampúið) og þurfti ég því að hlaupa aftur niður til að "checka" töskuna inn. Þegar ég loksins komst svo inn í fríhöfnina voru 40 mínútur í auglýstan brottfarartíma vélarinnar. Ég náði að skella í mig einum Thule svona í kveðjuskyni og spjalla við Árna og Betu. 06.50 er ég svo kominn í röð við hliðið. 07.30 fékk ég, ásamt hinum í röðinni, þar af um 20 stk af blekölvuðum hormónasprengjum, að vita að vegna tæknilegra örðuleika yrði ekki hleypt strax inn í vélina. Hálftíma seinna var vélin þó farin í loftið. Það var þó ekki til að bæta skap mitt að sjá hvaða flugfreyr var með minn hluta vélarinnar á sinni könnu. Jú, hver annar en Heiðar snyrtir. Það munaði litlu að ég stykki út en afréð þó að láta mig hafa það.

  Þegar komið er til Köben dríf ég mig beinustu leið upp í leigubíl, enda orðinn 30 mín of seinn til að hitta þann sem leigir mér herbergi til 15. sept (þá fæ ég afhenta íbúðina sem fjölskyldan kemur til með að búa í). Herbergið er annað tveggja á fjórðu hæð í týpískum verkamannakassa með garði í miðjunni. Ég deili litlu eldhúsi og pínulitlu baðherbergi með leigjanda hins herbergisins. Smæð baðherbergisins er slík að til að fara í sturtu þarf ég nánast að sitja á hornvaskinum, með annan fótinn ofan í klósettinu og að auki þarf ég að hrista sturtuhausinn yfir mér til að blotna því það kemur ekkert vatn úr miðjunni á honum. Í sjálfu herberginu eru svo borð og stóll, ódýrasti fataskápurinn úr Ikea, kollur með u.þ.b. "5 sjónvarpi og svo hermannabeddi sem er svo slappur að ég get talið gormana með rifbeinunum. Það er þó mikill kostur að hér er internet tenging og kapalsjónvarp og svo stoppar strætóin minn bókstaflega beint við útidyrahurðina.

Um kvöldið rölti ég Strikið þvert og endilangt. Ég byrjaði miðbæjarferðalag mitt um 18.30 og tókst að láta það endast í 11 tíma. Þar sem ég stóð fyrir utan "pöbbinn okkar Hauks" á Istedgade 22 og fékk mér ferskt loft með bjórnum mínum, þá vindur sér upp að mér maður sem greinlega aðhyllist Íslam og byrjar að spyrja mig út í þennan pöbb. Hann spyr mig svo að því hvaðan ég sé og verður mjög spenntur þegar ég segi honum það. Í ljós kemur að hann er mjög heillaður af íslenska hestinum, smæð hans og fjölda gangtegunda. Þar sem hann stendur fyrir framan mig og talar við mig  með blöndu af ensku- með illskiljanlegum framburði-  og dönsku  tekst honum að fara á mettíma frá því að tala um íslenska hestinn, yfir í gríska hugsuði, trúarbragðafræði og að lokum Jesú og Múhammeð. En hann færði mig svo í allan sannleikan um það hvað Jesú væri mikill morðingi og orsök alls hins illa í heiminum. Reyndar endaði samtalið fljótlega eftir að hann sagði mér frá því hvernig hann sjálfur hafði hangið á krossinum, farið til himna, stjórnað heiminum, drepið Jesú (sem heitir víst eftir á og þýðir Heilagt Vatn), og ýmislegt annað. Þetta var í það minnsta stórmerkilegur maður sem hefur verið til í ýmsum myndum í um 3.000 ár, að eigin sögn.
Þegar ég var að gefast upp á því að vera einn á djamminu í Köben, ég var bókstaflega að teyga síðasta sopan úr glasinum, þá kemur að sjálfsögðu upp að mér íslendingur sem er systir, vinkonu vinkonu minnar oh býður mér að setjast hjá sér og sínum. Það var upphafið að ágætu pöbbarölti sem endaði svo á hommabar (einn úr hópnum var samkynhneigður) þar sem nýlegt sænskt evróvisjon popp var álitin besta uppfinning sem fram hefur komið síðan Vaselín var sett á markað.

Skólinn byrjaði svo með látum á mánudag. Ég er einn af þremur strákum, annar er íslenskur en hinn er danskur. Að auki eru svo sex stelpur í hópnum, tvær danskar, ein finnsk og 3 sænskar. Svo skilst mér að líkur séu á að 3 nemendur bætist í hópinn á næstu dögum.
Í skólanum er eingöngu verið að vinna með líkamann og skilning manns á hreyfingu. Það þýðir endalausar teygju- og leikfimiæfingar. Síðustu fjóra daga er ég búinn að teygja á fleiri vöðvum en ég hef notað alla mína ævi.

 

Læt þetta duga, bless


Gott að eiga góða að.

Það er alveg stórmerkilegt sð hlýða á stamið í sjávarútvegsráðherranum í sjónvarpsfréttum. Ég horfði áðan á sjónvarpsfréttir síðustu tveggja kvölda með hjálp alnetsins. Það var ekki laust við að maður fengi niðurgang af því að hlýða á bullið í honum.
Hann reyndi að ljúga því að þjóðinni að auðvitað væri það ekkert kvótakerfinu að kenna hvernig ástandið er hérna fyrir vestan. Sagði að inn í kerfið væri byggt ýmislegt sem hjálpað gæti byggarlögum eins og Flateyri, eins og til dæmis byggðarkvóti og línuívilnun.
Var ekki samþykkt ályktun á landsþingi Sjálfstæðisflokksins þar sem loögð eru drög að því að afnema slíka "mismunun"?

Einar Oddur virtist um daginn vera orðinn opinn fyrir aðild að ESB. Í fréttatíma sjónvarpsins í gær hljóp hann hinsvegar undan fréttamanni á meðan hann reyndi að snúa út úr eigin orðum á þann veg að hann væri ekki hlynntur slíkri aðild.
Líklega hefur hann fengið skömm í hattinn frá forystunni einhvertíman í millitíðinni.


Neðansjávarhagkerfið

Ég vona að Lýður Árnason lífskúnstner og heilbrigðistarfsmaður fyrirgefi mér það að ég birti, án hans vitundar, grein sem hann fékk birta á bb.is í dag.

 Útgerðarmenn kaupa veiðirétt til að veiða sjálfir, leigja öðrum eða endurselja með hagnaði. Fá fyrirgreiðslu í banka, veðið veiðirétturinn sem verið er að kaupa. Standi útgerðirnar í skilum er hagsmunum bankans borgið. Standi útgerðirnar ekki í skilum er hagsmunum bankans áfram borgið því hann innleysir þá veðin og selur veiðiréttinn öðrum. Útgerðarmenn vilja ávöxtun á þeim veiðirétti sem þeir hafa keypt, þ.e. að endursöluverðið verði hærra en kaupverðið. Þess vegna hækkar fiskurinn út úr búð svo og kvótaleigan. Bankarnir dansa með og bjóða meiri fyrirgreiðslu til að greiða fyrir viðskiptum. Ríkisstjórnin hleypur undir bagga og setur fleiri fisktegundir í kvóta ásamt því að hunsa árlega tillögur eigin stofnunar sem kennir sig við hafrannsóknir. Þannig uppskrúfast verðgildi veiðiréttarins og markaðslögmálið sér um afganginn.

Útgerðarmenn hætta og selja veiðiréttinn. Hvert, er þeirra mál og söluhagnaðurinn notast að vild. Við áhvílandi skuldum taka nýjir kaupendur og bankinn eignast nýja viðskiptavini. Útgerðarmenn eru staddir á Old Trafford í boði bankans, stúkan hrynur og þeir farast. Veiðirétturinn fellur erfingjum í skaut og niðurkoma hans á þeirra valdi, réttarstaða sjávarbyggðanna hinsvegar engin.

Þetta er það neðansjávarhagkerfi sem við búum við og með því hafa auðlindir hafsins tapað mjög gildi sínu, umsetning þeirra og aðgengi algjörlega niðurnjörvuð í höndum hagsmunasamtaka sem eiga enga samleið með þjóðinni.

Boðberar breytinga í sjávarútvegi vilja ekki kollvarpa neinu nema einmitt þessu neðansjávarhagkerfi. Vernda tilkall þjóðarinnar til fiskimiðanna þannig að þeir njóti sem nýti og geri það á grundvelli heildarhagsmuna. Áframhaldandi óbreytt sjávarútvegsstefna er ávísun á landeyðingu og það er ekki samkvæmt spá heldur ferilskrá.

Lýður Árnason. Höfundur er heilbrigðisstarfsmaður.

Hann er óvitlaus drengurinn.


Kvótakofinn

Kvótakofinn er bygging sem stendur við sjávarsíðuna. Úr fjarlægð lítur kofinn ágætlega út, enda reglulega málaður. Húsverðirnir og nokkrir þeirra sem eiga stærstu herbergi kofans keppast við að dásama kofan bæði við íbúa sjávarþorpsins sem og erlenda gesti sem koma til að skoða kofann og taka af honum myndir.
Staðreyndin er hinsvegar sú að þrátt fyrir að hafa verið reistur fyrir aðeins tuttuguogþremur árum þá er kofinn ónýtur. En betur að því seinna.

Inni í kofanum búa nokkrar hræður sem vilja helst ekki hleypa fleirum inn. Áður fyrr bjuggu þarna mun fleiri enda var nóg af herbergjum. Lífsins gangur sá til þess að eigendur einstaka herbergja féllu frá og gekk því herbergi viðkomandi einstaklings í arf til ættingja. Oftar en ekki seldu erfingjarnir herbergið þar sem þeir höfðu ekki áhuga á því að búa þarna. En í stað þess að selja herbergin til aðila utan kofans þá voru þau yfirleitt seld til aðila í næstu herbergjum sem svo brutu niður veggi til að stækka eigin herbergi.

Þak hússins er hriplekt og vindar spillingar og græðgi næðir í gegnum óþétta veggi og glugga. Samt er fjöldinn allur af bæjarbúum sem vilja komast inn í kofann og einstaka sinnum er einhverjum hleypt inn og hann látinn sofa á gólfinu, gegn himinháu gjaldi, í stöðugum ótta við að vera fleygt út og það jafnvel án þess að fá að taka farangurinn sinn með.

Eins og áður sagði þá er kofinn ónýtur. Grunnurinn er sprunginn og skakkur enda reistur úr lélegum efnum og á sandi í ofanálag. Burðarveggir og sperrur eru ormétnar og fúnar. Aðalinngangur kofans er einnig ónýtur og því ómögulegt fyrir bæjarbúa að nota hann og í raun er ógerningur að komast inn nema með því að troðast inn um brotna glugga og eiga þá á hættu að skera sig og blæða út því innandyra er litla hjálp að fá.

Kofinn er í raun óíbúðarhæfur en eigendur hans og verktakarnir og arkitektar sem að byggingu hans stóðu eru í afneitun, vilja ekki laga hann.
Kofinn er hinsvegar það illa farinn að það ógerningur að gera við hann. Það er nauðsynlegt að kveikja í honum og reisa stærri og betri kofa á nýjum stað. Efniviðurinn skal vera íslensk reynsla og teikningarnar fluttar inn frá Færeyjum. Í kjallara nýja kofans væri svo hægt að henda húsvörðum þess gamla.

Nauðsyn þessarar breytingar er nokkuð sem fólk ætti að hafa hugfast þegar það gengur að kjörkössum þann 12. maí.


mbl.is „Kosningamálin hafa dottið dauð niður"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annáll 2012

Mikið vatn hefur síðan Sjálfsóknarflokkurinn tók við völdum síðastliðið vor, í fyrsta skipti eftir sameiningu flokkanna tveggja (Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks).
Aðeins þrem vikum eftir setningu þings með endurbættri ríkisstjórn voru samþykkt lög sem bönnuðu starfsemi annara stjórnmálaflokka í landinu. Sjávarútvegsráðuneytið var lagt niður og SS(Sjávarútvegs-sveitin (áður LÍÚ)), undir forrystu Þorsteins Más,  tók við þeim málaflokki sem ráðuneytið hafði áður sinnt. Ekki leiðs á löngu þar til einyrkjar í sjávarútveginum voru skilgreindir sem óæðri verur og settir undir sama hatt og vestfirðingar. Þeim var svo, ásamt vestfirðingum öllum smalað saman á Vestfirði og lokaðir þar inni í vinnubúðum auðvaldsins. Sjávarútvegurinn var að endingu algjörlega orðinn einkavinavæddur. Hver sá sem gerðist sekur um að svo mikið sem veiða sér í soðið i fjöruborði heimabyggðar sinnar var líflátinn.

Þegar þarna var komið við sögu höfðu vestfirsku fjöllin verið notuð til að fylla upp í firðina. Vesturflatlendið (gömlu Vestfirðir) var girt af, þar eru nú stóriðju-vinnubúðir, og eins og áður sagði notað undir undirmálsmenn og óvini kvótaframsalsins "frjálsa".

 

Framhald síðar . . . .


Sjálfvirkur þurrkuskammtari

Rosalega sniðug græja sem vekur mikl kátínu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband