Færsluflokkur: Bloggar

Trúðar og pappamassar

Um liðna helgi lagði ég tvívegis land og sund undir fót. - Eða öllu heldur fjórvegins, ef með eru teknar heimferðirnar- Ég skrapp yfir til Sviþjóðar, nánar tiltekið Helsingborg, til að fylgjast með trúðafestivali sem þar fór fram. Á laugardaginn ferðaðist ég ásamt kennaranum mínum og þremur samnemendum en á sunnudag fjórum samnemendum og litlu fjölskyldunni minni. Ég komst að því að trúðar geta bæði verið eitt besta skemmtiefni sem ég hef kynnst og það allra versta. Það er sannarlega fátt verra en slæmur trúður. Þá sá ég það einnig að það er ekki nóg að vera góður í fræðinni ef maður er með lélegt efni. Mun skemmtilegra er að fylgjast með lélegum trúð flytja gott efni. Á hátíðinni gaf að líta nokkurn veginn allan skalann.

Þessa vikuna erum við að læra að búa til grímur. Grímurnar eru úr pappamassa og er aðferðin víst aldagömul og fengin frá Feneyjum. Kennararnir tveir eru hinsvegar frá Þýskalandi og Írlandi. Sú þýska gerir sér stundum að leik að tala með þykkum þýsku gervihreim. Írinn gerir sér að leik að tala og gera að gamni sínu. Honum finnst hann fyndinn og það finnst mér oftast líka, þó ekki endilega af sömu ástæðu og honum. Bæði eru þau mjög viðkunnanleg og klár í sínu fagi og mér finnst námskeiðið bæði fræðandi og skemmtilegt. 


Skipið

Lauk nýverið við að lesa Skipið eftir Stefán Mána.
Sagan var spennandi og greip mann á fyrsta kafla. Ég átti erfitt með að leggja bókina frá mér og kláraði hana á tæpum tveim sólarhringum.
        Stefán Máni lofar góðu og ég mun vafalaust fylgjast eitthvað meira með verkum hans, ætla að lesa Svartur á leik við fyrsta tækifæri. Á skrifum Stefáns fann ég þó einn afgerandi galli. Honum verður iðulega á að gleyma sér í og velta sér upp úr eigin frumleika. Myndlíkingar í bókinni eru svo gríðarlega margar að það liggur við að þær séu jafnmargar atburðum. Sumar hverjar eru svo langar að maður heldur að höfundurinn sé að missa sig í að koma með myndlíkingu á myndlíkinguna.
       Að öðru leyti er bókin góð og það má telja Stefáni Mána það til tekna að kynnir sér vel viðfangsefni sitt og dregur upp skýra mynd af aðstæðum.


Gott grín hjá Sóleyju

Sóley Tómasdóttir reddaði alveg fyrir mér kvöldinu. Hún getur verið dásamlega einföld.

"Vændi væri ekki til staðar ef engir væru kaupendurnir. -Kaupendur sem vita hvar skuli leita. Fari vændið í undirheimana vita kaupendurnir ekki hvar það er að finna og þar með fellur það um sjálft sig."

 


Marilyn Manson

Ég hef beðið í tíu ár. MARILYN%20MANSON%20-%20Mechanical%20animals%20-%20FrontÍ dag sat ég inni í stofu þegar ég heyrði svo hljóðið. Ég mun aldrei gleyma því. Hljóðið í bréfalúgunni þegar umslaginu var stungið í gegnum hana áður en það lenti loks á gólfinu. Innihald umslagsins; tveir miðar á tónleika eins besta tónlistarmanns og ljóðskálds okkar tíma. Marilyn Manson. Nefndur Brian Hugh Warner af foreldrum sínum.

Tónleikarnir verða haldnir í Valby-stadium sem er steinsnar frá heimili mínu. Ég keypti tvo miða til að reyna að komast hjá því að fara einn á tónleikana. Enn sem komið er þá er ekki ljóst hver það verður sem mun nota hinn miðann. Auður kemur væntanlega með mér, ef við fáum pössun, en þó einungis ef enginn annar sem ég þekki sýnir miðanum áhuga. Sé einhver sem ég þekki sem hefur áhuga á að sækja tónleikana með mér, þá stendur honum miðinn til boða. Á kostnaðarverði að sjálfsögðu.


Gajol

Meðfylgjandi eru vísanir í tvær sjónvarpsauglýsingar frá Gajol:

The Sugarfrees - I Lommen På Dig
The Sugarfrees - Drops

Þessar auglýsingar vekja með mér mikla kátínu.

Saga Ga-jol hófst árið 1872. Galle og Jessen, ungir brjóstsykurgerðarmenn frá Kaupmannahöfn fjárfestu þá í húsnæði og nauðsynlegum áhöldum til að hefja eigin brjóstsykurgerð. Verkmsiðja þeirra stóð við Kongens Nytorv og til að byrja með skiptust þeir á að standa vaktina yfir pottunum og keyra vörurnar í búðirnar eða heim til viðskiptavina.
     tre-gamle-ga-joler-og-en-ny~Á næstu þrem árum óx fyrirtækinu fiskur um hrygg. Það skipti nokkrum sinnum um húsnæði, réði til sín starfsfólk og bætti nýjum vörum við framleiðsluna, s.s. karamellum, súkkulaðikonfekti, marsipani og hreinu súkkulaði. Árið 1875 lögðu þeir félagar upp í mikla auglýsingaherferð til að markaðsetja nýjustu vöruna sína; Íslenskar mosa-töflur. Mjúkar hálstöflur unnar úr íslenskum mosa.  Varan seldist hinsvegar illa og var fljótt tekin af markaði.
      Árið 1884 hófust framkvæmdir við nýtt verksmiðjuhúsnæði fyrirtækisins við Vibenhus Rundel. Fyrirtækið var seinna innlimað í Toms súkkulaðirisan sem flutti alla súkkulaðiframleiðsluna til Ballerup árið 1971. Gömlu verksmiðjunni við Vibenhus Rundel var svo endanlega lokað þegar öll töflu-framleiðsla fyrirtækisins var sameinuð Pingvin og flutt til Avedovre. 


Gaman að meiða pabba

Auður tók þetta video af okkur feðgunum í gær. Eins og sjá má þá finnst Alexander hriklaega skemmtilegt að meiða pabba sinn. Þessi leikur kannski ekki beint upp samkvæmt uppeldisfræðunum en við skemmtun okkur og það er fyrir öllu.


Grímugerð

Haukur hitti naglann á höfuðið í athugasemd við síðustu færslu. Þegar ég leit á myndina af Poul Hauch Fenger taldi ég mig einmitt vera að horfa á hann Björgúlf Thor.
 En svo var ekki. bjorgolfur_thor_bjorgolfsson

En eins og sjá má þá er óneitanlega svipur með þeim félögum.shapeimage_2

 

 

 

Annars er það að frétta að ég hef tekið LÍN í sátt. Þetta var allt saman misskilningur.

En þá að skólanum.
Á föstudaginn lauk hreyfingartímabilinu í skólanum. Það er ekki þar með sagt að við séum hætt að hreyfa okkur. Við erum sem sagt hætt að stúdera nákvæmlega hreyfingar hluta sem flestir sjá litla eða enga hreyfingu í. Eins og áður hefur komið fram þá hafði ég takmarkaða ánægju af þessu á meðan á því stóð en ég lærði mikið á þessu lít á þetta sem mjög gott hjálpartæki í persónusköpun.
       Næst á dagskrá eru þar grímurnar. Næstkomandi mánudag eigum við að mæta með tvær grímur í skólan. Grímurnar eigum við að hafa búið til sjálf. Ég er búinn með þá fyrri og sú seinni er hálfnuð.Október '07 116Október '07 110
Vinstri myndin sýnir fyrri grímuna á næst síðasta stigi sköpunar sinnar. Undirlagið er álpappír mótaður eftir andliti mínu sem er svo þakinn með gaffer límbandi. Næst límdi ég nokkrar umferðir af hvítum silkipappír á og notaði pappa til að stækka nefið. Hægra megin gefur að líta loka útlit grímunar eftir að ég límdi eina umferð af brúnum silkipappír á grímuna og penslaði hana svo alla með vinýl-lími til að styrkja hana og fá betri gljáa. 

Vikan fer svo í að vinna með grímurnar okkar. Vikan þar á eftir fer svo alfarið í námskeið í grímugerð. Það verður vonandi spennandi.


Íslenskur milljóner í framboði í Danmörku?

Mér brá nokkuð í brún þegar ég kom upp af lestarstöðinni í Norrebro í dag. Umhverfið þar, líkt og um alla Kaupmannahöfn, er þakið auglýsingaspjöldum. Spjöldin eru liður í kosningabaráttunni sem nú stendur yfir í aðdraganda alþingiskosninganna hér í Danmörku. Þessi tilteknu spjöld sýna andlit frambjóðenda ásamt upplýsingum um fyrir hvaða flokk viðkomandi býður sig fram. Það voru að sjálfsögðu ekki spjöldin sjálf eða fjöldi þeirra sem vakti furðu mína heldur kunnuglegt andlit sem horfði góðlátlega niður á mig af einu spjaldinu. Við nánari athugun kom hinsvegar í ljós að andlitið tilheyrði að sjálfsögðu ekki þeim sem ég taldi mig fyrst sjá - átti svo sem ekki von á því - en líkindin eru óneitanlega mikil.

                                                   shapeimage_2

 

Frambjóðandinn heitir Poul Hauch Fenger og býður sig fram fyrir Ny Alliance.
 
Getur einhver giskað á hver ég hélt fyrst að þetta væri?


Glædelig jul og godt Tub´år

Mig langar til að byrja á því að óska aðstandendum Skutuls til hamingju með nýja vefinn. Enn sem komið er þá er þetta afskaplega rauður og ísfirskur hópur sem kemur að vefnum. Ekki það að mér finnist eitthvað athugavert við það, síður en svo. mér finnst það hinsvegar alveg tilvalið fyrir svona vef að að honum komi fólk frá sem flestum kjörnum kjálkans. Ég efast ekki um að það verði ráðin bót á þessu þegar vefurinn hefur náð fótfestu.

Þá að skólanum.
Ég hef ekki verið sérlega hrifinn af þema síðustu tveggja vikna. Við erum búin að vera að kynna okkur "hreyfingar" frumefna, og lita, túlka hluti og málverk með hreyfingum. Þetta er mér ekki að skapi. Ég reyni engu að síður að nálgast þetta af opnum hug og hafa gaman af. Ole segir þetta mikilvægasta tímabil skólagöngunnar. Ég er farinn að sjá betur hvað hann meinar.
Hef ennþá mestar mætur á acrobat tímunum, býst við að þeir verði í uppáhaldi eitthvað áfram. Í það minnsta þar til kemur að Storytelling og/eða Clown tímabili námsins. Að standa á höndum og beygja mig yfir beina fætur til að snerta á mér tærnar eru ekki lengur fjarlægir draumar. Get reyndar ekki enn snert tærnar en á orðið ekki langt í það. Brúin er ennþá minn helsti óvinur. Ég stend fast á því að kvenlíkaminn hentar betur til þessara stellingar heldur en karllíkaminn.

 Á föstudag skellti ég mér á tónleika í Stúdentahúsinu á Köbmagegade. Í fylgdarliði mínu voru 3 samnemendur úr skólanum, þá Benni, Ulrika og Karen.  Hljómsveitir kvöldsins voru tvær. Solaarsem spilaði einhverskonar sígaunaskotið þjóðlagagleðipönkrokk undir smá miðjarðarhafsáhrifum, mjög hressandi og skemmtileg framkoma hjá þeim. Svo var það hljómasveitin José, sem að eigin sögn spilar rokk í sinni hreinustu mynd. Taktmikil og hröð lög sem rifu mann með sér. Söngkonan hafði sterka og skemmtilega nærveru og trommuleikarinn fór algjörlega hamförum í öllum sex trommusólóunum sem hann tók, þar af voru þrjú í uppklappslaginu. Ég hef séð annan eins lokakafla hjá hljómsveit.
Um það bil klukkustund áður en tónleikarnir hófust þá streymdu inn ungmenni í einhverskonar bláum og hvítdoppóttum jólasveina  og sveinku búningum. Fólkið var vopnað kössum af jólabjór Tuborg.Tuborg_julebryg_140 Á Föstudag var nefnilega J-dagurinn. En það er útgáfudagur jólabjórsins og er þá jafnan mikið um dýrðir í  borginni, til dæmis voru gosbrunnar Striksins fylltir af froðu sem eflaust hefur verið ætlað til að minna á bjórfroðuna. Sala bjórsins hófst á slaginu 20:59 og hið ógeðfellda og afskræmda stef sem er notað til að kynna bjórinn fékk að hljóma í góðan hálftíma á meðan slegist var um að koma höndum á flöskubjórana sem bláklæddu ungmennin dreifðu um staðinn.


Á heimleiðinni þurfti ég að þræða Istedgade, einu sinni sem oftar, til að ná næturvagninum heim. Ég veitti því athygli að vændiskonum í götunni hefur stórfækkað, varð var við fleiri Íslendinga. Eflaust finna þær fyrir kulda eins og flestir aðrir. Dúnúlpur eru kannski ekki beint söluvænlegar pakkningar. 
Sem ég gekk fram hjá hópi fólks neðarlega í götunni  heyrði ég einn úr hópnum ávarpa annan með nafninu Mugi. Ég gældi við þá hugmynd að spyrja eftir Mugison en gerði mér fljótt grein fyrir líkunum á mjög takmörkuðum undirtektum slíkrar hótfyndni og hélt því fastast áfram göngu minni.

Þetta er Ársæll Níelsson sem bloggar frá Kaupmannahöfn


Myrkrahöfðinginn

Trausti, höfundur þessarar fréttar, virðist alveg hafa gleymt Myrkrahöfðingjanum. Þar voru æxlunarfæri leikarans sýnd í nærmynd. Mig minnir að fyrir tökur þess atriðis hafi Hilmir þurft að leggja á sig að hafa tvær sænskar sminkur með andlitin ofan í klofinu á honum í tvo tíma að farða á honum kynfærin.

Annars er ekki hægt að vera Trausta reiður fyrir þessa yfirsjón, enda um arfaslaka mynd að ræða sem eflaust flestir hafar reynt að gleyma. - A.m.k. þeir fáu sem létu sig hafa það að horfa á hana.

 

Þetta fréttablogg var tileinkað Gylfa


mbl.is Hilmir Snær nakinn í kvikmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband