Á hvíta tjaldið?

Ósjaldan eftir að hafa svarað þeirri spurningu hvað ég sé að læra, segist spyrjandinn hlakka til að geta jafnvel einn daginn bent á hvíta tjaldið og sagst með stolti hafa hitt mig. Það er gott og blessað og í rauninni þá vona ég að viðkomandi verði af ósk sinni. En á þessu er þó ákveðinn formgalli. Það vilja nefnilega ekki allir leiklistarnemar enda á hvíta tjaldinu. Sumir vilja hvergi vera nema í leikhúsinu, hvort sem það er rekið á fjárlögum eða styrkjum. Aðrir vilja jafnvel hvorugt heldur ætla að nýta menntun sína innan veggja menntastofnanna, leiklistarskóla, háskóla, menntaskóla, grunnskóla eða jafnvel leikskóla (á listar í miðjunni).

 


Þvottadagur

Á heimilinu er það konan sem sér um þvottinn. Að öðru leyti er verkskiptingin mjög nútímaleg. Ég vaska upp, skúra, ryksuga og sé um börnin til jafns við hana og þangað til nýlega sá ég alfarið um eldamennskuna.

En aftur að þvottinum.
Í gær var konan að brjóta saman þvottinn. Frænkan var í heimsókn og sat hún með Tristan í fanginu og spjallaði við konuna á meðan hún glímdi við hreinu fötin. Allt í einu andvarpar konan og segir að þetta húsverk taki svo sannarlega tímana tvo. Ég lá magaveikur uppi í rúmi en heyrði til hennar og kallaði fram eftirfarandi vísu; 

Að þetta taki tímana tvenna
er þér að kenna
því þú félst sjálf í þá kviku
að þvo bara einu sinni í viku.
 

Jújú, það blundar nú einu sinni í manni smá Arnfirðingur.


Lýðveldishreyfingin

Fallegt af honum Ástþóri að stofna Lýðveldishreyfinguna. Eflaust skref í rétta átt og því ber að fagna. Líklega hefði þetta fengið meiri athygli ef einhver annar stæði fyrir þessu. En er ekki ákveðin þversögn fólgin í því að stofna flokk um einstaklingsframboð? Hvernig getur maður litið svo á að maður sé að velja sér einstaklinga þegar maður kýs Lýðveldishreyfinguna þó svo að hún sé skipuð óflokksbundnum aðilum? Á þann framboðslista þarf væntanlega að vera búið að raða fyrir fram og hver sem kýs hreyfinguna hlýtur því að vera að leggja blessun sína á það. Er hægt að taka þetta eina skref og líta svo á að við höfum færst nær einstaklingsframboðum? Er ekki nauðsynlegt að taka stökkið alla leið eða sleppa því?

Að Kristni H ólöstuðum þá ætti hann að skella sér þarna um borð. Hann fúnkerar illa í flokki og hlýtur að taka einstaklingsframboðum fagnandi.


Lesið og hræðist . . .

Magnús Þór varpar hér smá ljósi á tengsl norska ráðgjafa ríkistjórnarinnar við fjárglæframennina sem skuldsettu börnin mín.


Virðingarleysi

Nýjasta spillingarmálið er er hið stórfellda auðgunarbrot forstöðumans verðbréfamiðlunar hjá Virðingu. Hinn spillti er sonur forstjóra Kauphallarinnar sem er svo aftur mágur Árna Matt
Ég vil svo sem ekki gefa í skyn að Árna beri að passa upp á heiðarleika allra sem tengjast honum en þetta hlýtur að teljast óheppilegt fyrir hann, að því gefnu að tengslin séu bara tilviljun.

Sumir segja að tilviljanir séu ekki til. 


Kvótinn, kreppan og Þorvaldur Gylfason

Þorvaldur Gylfason spyr; Ætlar linkindin aldrei að líða hjá?

Skyldulesning eins og margir hafa bent á. Í geininni segir meðal annars:

    "V. Hvaða neisti kveikti bálið?"

". . . . . . . .  Annað skammdrægara svar er þetta. Rás atburðanna hófst fyrir aldarfjórðungi með upptöku kvótakerfisins, þegar stjórnmálastéttin kom sér saman um að afhenda útvegsmönnum ókeypis aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar."

I hate to say I told you so, but I did.


Að synda á móti straumnum?

Þegar fjölskyldan flutti hingað út fyrir rúmu ári síðan hljóðaði áætlunin upp á 5-7 ára útlegð. Að loknum tveimur árum í The Commedia School skyldi stefnan tekin á annan leiklistarskóla með öðruvísi stefnu. Svona upp á fjölbreytnina. Spússan ætlaði sér líka í háskólanám svona um leið og báðir ungarnir væru nógu fiðraðir til að afbera smá aðskilnað við móður sína. Hún hefur hinsvegar enn ekki fundið nám sem vekur áhuga þó ég hafi fundið skóla sem hugsanlega myndi henta minni stefnu.

Nú eru hinsvegar uppi hugmyndir um að slá jafnvel botninn í þetta ævintýr og snúa heim á ný strax að loknu námi við The Commedia School, þ.e. næsta sumar. Það hefur nefnilega komið í ljós að Kvikmyndaskóli Íslands, sem ég hef hingað til haldið að kenndi aðeins þau fræði sem fram færu á bak við myndavélina, býður einnig upp á svið sem kallast Framkomufræði: leiklist fyrir kvikmyndir, þáttastjórnun og fréttamennska.
Það er ýmislegt sem mælir með því að pakka bara saman og snúa aftur heim. Þyrftum þá reyndar að flytja á höfuðborgarsvæðið sem hefur aldrei verið "heima". Værum líka að flytja í kreppuna. Það er þó kostur að húsnæðisverð er væntanlega á niðurleið. Allt annað á uppleið. Annar kostur er líka sá að líklega væri auðveldara fyrir mig að vekja athygli á mér og undirbúa ferilinn heima fyrir. Á meðan leiklistarlífið hérna úti býður svo sem upp á mun fleiri möguleika þá er samt lítið í boði fyrir þá sem ekki tala dönsku eins og innfæddir (eða a.m.k. eins og meirihluti innflytjenda).

Þegar upp er staðið þá ræðst þetta auðvitað af því hvort konan geti jafnauðveldlega (eða erfiðlega) fundið nám við sitt hæfi á íslandi eins og hér í Köben. Húsnæðismálin hljóta svo auðvitað að hafa eitthvað um það að segja. En það hlýtur að vera hægt að finna ódýra íbúð nú þegar 800 íbúðir standa auðar í Rvk.

Spurning hvað verður.


Óskalistinn

Ég ætla að gera eins og Tinna og birta óskalista fyrir jólin.

  • Flug "heim" um jólin. (Við hjónin búin að splæsa þessari gjöf á hvort annað.)
  • Armbandsúr. Ég er nægjusamur, þetta Seikó úr myndi duga.
  • Nýjar náttbuxur. Helst Joe Boxer (stærð m/m eða l/m).
  • Hatt. Þessi og þessi eru til dæmis frekar svalir (stærð L/LX). Engin pressa samt.
  • Bækur
    - Íslenskar skáldsögur og krimmar.
    - Erlendir krimmar (helst ekki þýddir ef skrifaðir á ensku)
      ~Vænlegir höfundar; Jeffery Deaver, Jeff Lindsay, P.J. Parrish,
        James Patterson, Robert Harris, Steve Berry, Lee Child o.m.f.
    - Fræðibækur
      ~ Sagnfræði, leikhús, kvikmyndir, heimspeki, trúarbragðafræði,
          matreiðslubækur.
  • DVD
    - Klovn (með íslenskum texta).
    - Dagvaktin. Geri ráð fyrir því að þáttaröðin komi út fyrir jólin líkt og Næturvaktin.
    - Chaplin myndir. ( Í safni mínu eru þegar The Kid, The Great Dictator og City Lights.)
  • Kannski eitthvað fallegt fyrir syni mína.
  • Ný ríkistjórn.

Af náminu.

Mig langaði allt í einu rosalega mikið til að blogga. Vissi samt eiginlega ekkert um hvað. Renndi í gegnum fréttirnar, tók bloggrúntinn en fékk engan innblástur sem heitið getur.

Ætla bara að skrifa um sjálfan mig að þessu sinni.

Síðasta föstudag var Melodrama sýningin sem við höfum undirbúið síðan í byrjun október. Gríðarlega góð mæting, vel yfir hundrað sálir, enda afmælishelgi skólans. Sýningin gekk vel, áhorfendur og leikarar sáttir. Ljúfsárt að standa þarna undir lófaklappinu og hugsa til þess að þessu tímabili námsins væri lokið. Melodramað er kúnstugt og glettilegt skemmtilegt form. Safngripur segja sumir. Ég vill gjarnan dusta rykið af þessum safngrip og vinna aðeins með þetta form þegar ég kem heim. Kannski ég reyni að fá kómedíuleikaran í samstarf um það verkefni.

Á laugardag var móttaka í skólanum. Veitingar og gestagangur frá þvi upp úr hádegi. Um kvöldið sýndu fyrrverandi nemendur stutt skemmtiatriði. Flest var nokkuð áhugavert. Sér í lagi þótti mér þetta góð leið til að sækja mér innblástur og sjá hvernig fólk er að nýta námið. Ég dreifði Act Alone póstkortum á liðið.

Á mánudaginn hófst stutt tímabil textavinnu. Erum að glugga í Shakespeare og lítum á Checkov í næstu viku.


Sonnetta Shakespeares nr. 116

Tveir hjartans vinir hvergi meinbug sjá
á helgum eiði: rangnefnd er þá tryggð
ef breytist hún þá brigðir þola má,
ef bifast þá hún mætir lygð og styggð.

Nei! hún er viti byggður bjargi á,
í byljum haggast ei, en lýsir fleyi
sem úthafs-farsins himinstjarna há,
þar hæðin verður mæld en stærðin eigi.

Hún er ei kennd við tímans tál og sýnd
þó tærist hennar rjóða kinn og vör,
en ein og söm, til undanláts ei brýnd
hún endist meðan stendur lífsins för.

Því ef mótsögn er við þennan sann
ég aldrei reit - og tryggð ei prýðir mann.


mbl.is 6 fundir með seðlabankastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband