Þjóðsaga

Þá er sagan mín næstum klár. Á bara eftir að renna í gegnum hana nokkrum sinnum til að hún nái betra flæði. Hugsa að öllum breytingum sé lokið. Búinn að smyrja á hana nafni - "Þjóðsaga" eða "Icelandic Folklore" á ensku. Sagan samanstendur af stuttri kynningu á íslenskum furðuverum og huldufólki ásamt frásögn af samskiptum manna og huldufólks.
Það verður storytelling sýning í skólanum á fimmtudag eftir páska og þar frumsýni ég þennan stutta einleik.
Ef einhver vill fá íslenska forsýningu þá má alveg skoða það ;)

Fjölskyldan fer svo í páskaferð til Íslands á sunnudag og stefnan sett á Súgandafjarðarsvæðið á mánudag. Það stefnir í heljardagskrá; myndataka, tónleikar, teiti og 2-3 leiksýningar (sem áhorfandi). Inn á milli þarf ég svo að reyna að finna mér tíma fyrir æfingar, sundferðir og páskaeggjaát. Ef færð leyfir þá vonumst við líka til að geta farið dagsferð til Tálknafjarðar.


Búlgarska Mariah Carrey

Þetta er hrikalega fyndið. Það er ekki hægt að segja annað.


Bubbi

Ásbjörn Morthens hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið. Raunar alveg síðan ég man eftir mér en upp á síðkastið hefur borið meira á honum en oft áður. Hann fór miklum í ædolinu og "skapaði" svo eigin þátt sem hann smurði með sínu nafni. Dóri nokkur sem kennir sig við DNA gagnrýndi þáttinn á síðum DV og uppskar aðkast frá hinum íslenska konungi rokksins sem gerði útá genamengi Dóra sem er barnabarn Nóbelverðlaunaða atómskáldsins. Sjálfur hef ég ekki séð þáttinn en hvort sem þátturinn er góður eður ei þá fundust mér viðbrögð Bubba barnaleg. Nú síðast ræðst Bubbi á Birgir sem oft er kenndur við Maus. Birgir starfar nú sem ritstjóri einhvurs tónlistarblaðs sem ég kann ekki að nefna og reit nýverið pistil þar sem hann finnur eitthvað að kapítalisma gamla pönkarans ásamt því, að mér skilst, að krítisera hann á einhvern frekari máta.

Þeim sem vilja fræðast nánar um málið er bent á þessa frétt á Vísi.

Ástæðan fyrir því að hendur mínar leika um lyklaborið í umfjöllun um þetta mál er ekki til að rýna í það hvort Bubbi sé frumkvöðull eða eftirherma, sell-out eða fallin (úbs) stjarna, góður eða slæmur tónlistarmaður. Það sem dregur mig að lyklaborðinu er hinsvegar persóna mannsins. Viðbrögð hans við umfjöllunum Dóra og Bigga fá mig til að efast um þroska hans. Hugsanlega finnst honum hann tilneyddur að svara allri gagnrýni fullum hálsi til að viðhalda einhverjum uppreisnarstatus sem hann fékk eftir að hafa sýnt miðfingurinn í "Á tali hjá Hemma. . . " hérna um árið en mér finnst þetta bara barnalegt. Menn eiga að geta tekið gagnrýni hvort sem hún er góð eða slæm.
Ég hef alltaf fílað tónlistina frá honum, mis vel auðvitað, en á seinni árum hefur álit mitt á manninum minnkað. Ekki batnaði það síðasta vetur þegar ég hitti manninn í eigin persónu.
Þá hafði ég atvinnu hjá fyrirtæki í ferðaþjónustu- og veitingageiranum. Hann átti þarna viðskipti eitt sinn, þegar ég var á vakt, þar sem hann var að halda tónleika í grenndinni. Ég varð var við að tveir viðskiptavinir bíða eftir þjónustu og fer til að sinna þeim. Þar sé ég Bubba og annan mann standa og spyr förunautur Bubba hvort hægt sé að fá kaffi hjá mér. Ég verð "starstruck" í augnablik og reyni að slá á létta strengi. Man ekki djókið lengur en það var lélegt og það fannst þeim líka. Á meðan þeir sitja inni á staðnum þá fer ég nokkrar ferðir að borðinu þeirra til að sinna þeim. Meðreiðarmaður Bubba sá alfarið um að tala við mig, spyrja um og panta vörur og þjónustu, að undanskyldu einu sinni þar sem Bubbi talar (kallar, þó ég stæði innan við hálfan metra frá honum) til mín án þess þó að líta á mig, en það gerði hann ekki í eitt skipti. Um kvöldið þurftu þeir kumpánar aftur á þjónustu minni að halda og enn var það félaginn sem sá um öll samskipti við mig, Bubbi meira að segja pantaði súkkulaðistykki í gegnum aðstoðarmanninn.
Sumum kann að finnast þetta léttvægt en aldrei áður hef ég fundið fyrir jafn mikilli auðmýkingu í þjónustustarfi.

Mín skoðun er sú að það þurfi aðeins að kippa í lappirnar á honum til að draga hann niður úr skýjunum. Hann hefur lagt hart að sér og á skilið þá velgengni sem leikur við hann en hann er samt mannlegur og þarf að læra kurteisi. Hann kom þó Össuri til varnar í einhverri færslu um daginn sem sýnir að hann getur hitt naglann á höfuðið. Það var þó kannski vegna þess að Össur var gagnrýndur fyrir óréttlátar persónuárásir, eitthvað sem Bubbi hefur reynt að apa eftir.
Kannski vill hann bara draga að sér enn meiri athygli, ég veit ekki.


Method og kvikmyndaleikur

Í gær var mér bent á leiklistarskóla í Frederiksbergs sem menntar nemendur sína út frá kenningum Stanislavskijs. Stanislavskij var Rússneskur leikhúsfrömuður sem hannaði ákveðna leiklistaraðferð sem er gjarnan kölluð "The method" eða aðferðin. Þeir leikara sem styðjast við kenningar hans eru svo kallaði method-leikara. Einn af nemendum hans var Stella Adler, Bandarísk leikkona af gyðingaættum, sem stofnaði svo leikhóp í New York. Leikhópurinn varð svo að leiklistarskóla sem kennir þessi fræði þó Stella hafi breytt þeim eitthvað aðeins. Margir vilja meina að Stalla hafi umbylt leiklistarlífinu í Bandaríkjunum og má segja að hún hafi skapað leikstíl kvikmynda nútímans. Skólin hefur í árana rás verið útungunarstöð kvikmyndastjarna. Meðal þeirra sem runnið hafa þar í gegn eru Marlon Brando, Robert De Niro, Meryl Streep, Al Pacino, Bryce Dallas Howard, Harvey Keitel og margir fleiri ásamt því sem gríðarlegur fjöldi annarra stjarna eru menntaðar í þessum fræðum frá öðrum skólum.

Skólinn í Frederiksberg heitir Film/teaterskolen Holberg og kennir method, acting (sem er undirbúningur fyrir fólk með litla reynslu) og leikstjórn. Skólinn er í nánu samstarfi við fagfólk úr leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi. Í method náminu er áhersla lögð á persónusköpun ásamt því að kynna mann fyrir framkvæmd kvikmyndagerðar og uppsetningu leiksýninga. Mér skilst að það séu settar upp a.m.k. tvær stúdentasýningar, í lok annars og þriðja árs, þangað sem fagfólki er boðið að koma og skoða nemendur, auk þess sem mikið er um að verkefni séu unnin í formi stuttmynda.
Er að spá í að heimsækja skólann, taka einhverja nemendur og kennara tali og sjá svo til hvort ég fari í inntökupróf hjá þeim á næsta ári.


Molar

Ég sat í strætisvagni í gær þegar inn kom kona sem framvísaði ljósmyndapassa. Hún var íklædd búrku. Skyldi hún líka hafa verið í búrkunni á ljósmyndinni? Búrkukonurnar eiga sennilega auðvelt með að samnýta strætópassana sína.

Það lesa að meðal tali 35 manns bloggið mitt á degi hverjum. Hvort þetta eru alltaf sömu 35 sem lesa það veit ég ekki. Hérna kvittar enginn nema þá faðir minn, Bennarnir tveir og nú síðast Rúnar Karvel. Þetta eru ekki nema 4, mér leikur forvitni á að vita hverjir hinir eru.

Seinna árið í námi mínu við The Commediaschool hefst mánuði seinna en fyrra árið. Ég fæ því fjögurra mánaða "sumarfrí". Ég hef sumarfrí innan gæslappa því ég mun að sjálfsögðu ekki vera í fríi. Er þó aðeins kominn með vinnu fram að verslunarmannahelgi og á enn eftir að dekka ágúst og sept. Hugmyndir einhver?

Fór í bíó í gær. Shoot ´em up. Prýðisfín mynd. Hún gerir út á það að vera yfirdrifin og léleg. Það heppnast vel. Betur heldur en tókst til í Snakes on a plane sem mér fannst bara léleg. Gerði mér reyndar ekki grein fyrir gríninu fyrr en seinna. Í Shoot ´em up sá ég í fyrsta skipti mann drepinn með gulrót. Meira að segja tvo menn, þó ekki með sömu gulrótinni.


Storytelling

Loksins erum við komin á tímabil í skólanum sem ég hef beðið eftir með eftirvæntingu en við erum að vinna í storytelling þessa dagana. Ekki það að mér hafi fundist það alslæmt sem á undan er gengið, síður en svo. Hinsvegar verð ég að viðurkenna að ég hef haft takmarkaðan áhuga á ýmsu sem við höfum unnið með. Grímurnar voru til dæmis mjög áhugaverðar sem og persónusköpunin sem farið var í í janúar. Hreyfingatímabilið þótti mér hinsvegar afspyrnu leiðinlegt þó það hafi komið mér að gagni að ýmsu leyti.

Eins og áður sagði þá er núna storytelling tímabil og er hagkvæmnin við það form mér strax augljós. Sérstaklega hefur hún opnað augum mín gagnvart frekari útfærslu á því sem ég hafði aðeins fengist við áður en ég byrjaði í náminu. Einleikjaformið á að mínu mati flest sitt undir frásagnarlistinni (storytelling) þó að margt af því, ef ekki allt, sem við höfum farið í undanfarna mánuði nýtist vissulega sem hjálpartæki. Vikuverkefnum sem við höfum unnið að í hópum undanfarna mánuði hefur verið ýtt til hliðar og erum við þess í stað hvött til að leggja fram verkefni, sem við sjálf höfum frumkvæði af. Á hverjum degi gefst okkur tækifæri til að sýna það sem við erum að vinna að. Þetta mega vera bæði einstaklings og hópaverkefni. Þarna er þá verið að hvetja okkur til að búa til og setja saman, hvort sem er frumsamið eða byggt á áður birtu efni, sögur sem við setjum fram með hliðsjón af hinum ýmsu aðferðum frásagnar sem fyrir okkur hafa verið lagðar. Afraksturinn, ásamt einhverjum grímuverkefnum, verður svo fluttur á sýningu sem við munum setja upp í lok mánaðar.

Um síðustu helgi kokkaði ég upp stutta frásögn byggða á einni af þjóðsögum Jóns Árnasonar, Jón smali og huldufólkið. Téðri frásögn var þó upphaflega ekki ætlað að vera annað en redding til að hafa eitthvað til að sýna í tíma í gær. Ég var því ekki mikið að leggja í hana, endursagði hana bara eins og hún birtist mér. Ég lagaði hana þó aðeins að forminu, nýtti mér bæði frásögn í bundnu máli og svo leik þar sem því var við komið. Eftir ábendingar kennara og samnemenda ákvað ég að vinna aðeins betur með söguna. Sagan er nokkuð snubbótt líkt og íslensku þjóðsagnanna er háttur og því ætla ég aðeins að bæta við hana til að gefa henni meiri fyllingu. Einnig er ég mikið að líta í kringum mig eftir efni í fleiri atriði og set ég stefnuna á að hafa í það minnsta 3-4 atriði í handraðanum í lok annar. Það væri fínt að eiga eitthvað á lager ef mér tekst að trana mér fram við einhver tækifæri í sumar.

Uppástungur að efni eru vel þegnar frá lesendum.


Kjálki - Vestfirskur fjallagrasabjór

Litlar bruggverksmiðjur eru farnar að skjóta upp kollinum ein af annarri. Nú hvet ég einhvern stórhuga vestfirðing til að drífa sig í slíka framkvæmd áður en markaðurinn verður of mettaður. Það væri ekki úr vegi að reyna að skapa sér sérstöðu á markaðnum með einhverju móti og legg ég til að athugaðir verði möguleikar á því að nýta á einhvern hátt fjallagrös við bruggunina. Í hvaða magni og á hvaða stigum bruggunarinnar það væri mögulegt þekki ég ekki en ef það fyndist leið til þess þá væri sérstaðan komin. Bjór úr tandurhreinu vestfirsku vatni, bættur með vestfirskum fjallagrösum. Þar sem fjallagrösin eru sögð allra meina bót, styrkja ónæmiskerfið og meltinguna, þá er ekki úr vegi að álykta að þar fengist prýðilega hollur bjór sem vekja myndi athygli.
Tilvalið væri að gera samning við veitingastaði á vestfjörðum um að selja mjöðinn og þar með væri lágmarks dreifing tryggð. Einnig væri hugsanlega hægt að drýgja tekjurnar með því að selja aðgang að sýnis- og smakkferðum um verksmiðjuna.

Mér skilst að Maðjurt gæti hentað vel enda var hún á árum áður notuð í mjöð og dregur hún nafngiftina þaðan. Maðjurt telst þó tæknilega ekki til fjallagrasa (sem eru fléttur af sveppum og þörungum) heldur plantna en það má vel líta framhjá því.

fjallabj2
Mynd: BIX
 


mbl.is Nýr bjór kemur á markað um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestfirðir á teikniborðinu

Skýrsla Framtíðarlandsins um samantekt af vetrarþinginu "Vestfirðir á teikniborðinu" var birt fyrir skömmu og er þegar farin að valda nokkru umtali. Sem er gott mál. Þarna er að finna margar góðar og skemmtilegar hugmyndir.
vestf_mynd2
Leiðinlegt hefur mér fundist að lesa blogg þar sem fólk talar niður þetta framtak, nefnir eina til tvær tillögur úr skýrslunni sem dæmi og gerir grín þeim, efast um ágæti þeirra eða burði til að skapa mörg störf. Þarna er oftast á ferðinni fólk sem hefur hengt sig á Olíuhreinsunarstöðvardrauminn og neitar að sleppa sama hvað tautar og raular. Einhverjir virðast blindaðir af gylliboðunum um 700 störf og sjá sig því tilneydda til að rakka niður hugmyndir sem "einungis" færa vestfirðingum 2-3 störf. Eins og ég las einhver staðar þá eru "molar líka brauð" og því óábyrgt að kasta hugmyndum í ruslið vegna smæðar. Það eru einmitt þær hugmyndir sem mestu skipta. Verst þykir mér þó að sjá hvað það hreinlega hlakkar í sumum vegna þess að þeim finnst tillögurnar slæmar, sennilega vegna þess að þeir telja þá olíudrauminn kominn skrefi nær.

Ólína Þorðvarðar skrifaði grein þar sem sem hún meðal annars veltir fyrir sér tengslum magns og gæða í byggðarþróun. Ég er sammála því að það er ekki endilega sama sem merki þar á milli.cgan211l Ég get ekki ímyndað mér að svona stór vinnustaður, sem olíuhreinsunarstöð yrði, sé sniðug lausn fyrir vestfirðinga. Við ættum að vita það manna best hvað það er slæmt fyrir jafn fámennt samfélag þegar einn atvinnuvegur skipar áberandi stóran sess, hvað þá einn vinnustaður. Við ættum að vera búin að læra af fyrri mistökum og sleppa því að skella öllum eggjunum í eina körfu.


Indian drum

Það gerist varla betra. Þetta er ógeðslega fyndið.


The Writer´s Journey

Ég rakst á nokkuð áhugaverða bók um daginn, raunar fannst mér bókin það áhugaverð að ég keypti hana. Bókin heitir The Writers Journey: Mythic Structure for Writers og er eftir Christopher Vogler en hann hefur meðal annars starfað sem ráðgjafi hjá Disney, Fox 2000 og Warner Bros.

WritersjourneysmallBókin er nokkurs konar handbók í handritagerð sem einblínir á þá kenningu að flestar sögur hafi sömu uppbyggingu og persónufrumgerðir, sem lýst sé með goðsagnakenndri táknsögu. Vogler byggir skrif sín á skrifum goðsagnafræðingsins Joseph Campell, þó einkum á The Hero With a Thousand Faces, og heldur því fram að allar góðar kvikmyndir lúti þessum lögmálum. Bókinni hefur verið vel tekið frá því að hún var fyrst gefinn út, árið 1992 (3. útgáfa kom út í fyrra), og er algeng á bókaskrá nemenda í handritagerð.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband