Kíkjum aftur inn í kvótakofann.

Rétt fyrir síðustu kosningar skrifaði ég færslu sem ég kallaði "Kvótakofinn". Vegna umræðu síðustu daga um áhrif kreppunnar (og reyndar góðærisins) á sjávarútveginn varð mér hugsað til þessarar færslu. Mér þótti hún góð og kíkti því aftur á hana. Mér þykir hún enn góð og ætla að birta hana aftur.

Kvótakofinn 

Kvótakofinn er bygging sem stendur við sjávarsíðuna. Úr fjarlægð lítur kofinn ágætlega út, enda reglulega málaður. Húsverðirnir og nokkrir þeirra sem eiga stærstu herbergi kofans keppast við að dásama kofan bæði við íbúa sjávarþorpsins sem og erlenda gesti sem koma til að skoða kofann og taka af honum myndir.
Staðreyndin er hinsvegar sú að þrátt fyrir að hafa verið reistur fyrir aðeins tuttuguogþremur árum þá er kofinn ónýtur. En betur að því seinna.

Inni í kofanum búa nokkrar hræður sem vilja helst ekki hleypa fleirum inn. Áður fyrr bjuggu þarna mun fleiri enda var nóg af herbergjum. Lífsins gangur sá til þess að eigendur einstaka herbergja féllu frá og gekk því herbergi viðkomandi einstaklings í arf til ættingja. Oftar en ekki seldu erfingjarnir herbergið þar sem þeir höfðu ekki áhuga á því að búa þarna. En í stað þess að selja herbergin til aðila utan kofans þá voru þau yfirleitt seld til aðila í næstu herbergjum sem svo brutu niður veggi til að stækka eigin herbergi.

Þak hússins er hriplekt og vindar spillingar og græðgi næðir í gegnum óþétta veggi og glugga. Samt er fjöldinn allur af bæjarbúum sem vilja komast inn í kofann og einstaka sinnum er einhverjum hleypt inn og hann látinn sofa á gólfinu, gegn himinháu gjaldi, í stöðugum ótta við að vera fleygt út og það jafnvel án þess að fá að taka farangurinn sinn með.

Eins og áður sagði þá er kofinn ónýtur. Grunnurinn er sprunginn og skakkur enda reistur úr lélegum efnum og á sandi í ofanálag. Burðarveggir og sperrur eru ormétnar og fúnar. Aðalinngangur kofans er einnig ónýtur og því ómögulegt fyrir bæjarbúa að nota hann og í raun er ógerningur að komast inn nema með því að troðast inn um brotna glugga og eiga þá á hættu að skera sig og blæða út því innandyra er litla hjálp að fá.

Kofinn er í raun óíbúðarhæfur en eigendur hans og verktakarnir og arkitektar sem að byggingu hans stóðu eru í afneitun, vilja ekki laga hann.
Kofinn er hinsvegar það illa farinn að það ógerningur að gera við hann. Það er nauðsynlegt að kveikja í honum og reisa stærri og betri kofa á nýjum stað. Efniviðurinn skal vera íslensk reynsla og teikningarnar fluttar inn frá Færeyjum. Í kjallara nýja kofans væri svo hægt að henda húsvörðum þess gamla.

Nú er kofinn endanlega að hruni kominn vegna íþyngjandi lána hvers aukni þungi er ormétnu burðarveggjunum um megn.


mbl.is Sjávarútvegurinn í raun gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Starbuck

Snjöll líking!

Starbuck, 30.11.2008 kl. 22:11

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Góður !

Níels A. Ársælsson., 30.11.2008 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband