Enn lýgur Vegagerðin

Snjómokstursreglur á Vestfjörðum

Eftirfarandi texti birtist á vef Vegagerðarinnar í gær (2.1.09);

"Undanfarin ár hefur snjólétt tíðarfar leitt til þess að reglurnar hafa verið túlkaðar nokkuð rúmt og mokað þar sem samkvæmt reglanna hljóðan ætti ekki að moka. Þannig hefur þjónustan smátt og smátt aukist umfram snjómokstursreglurnar. Þetta ásamt fleiri þáttum hefur leitt til þess að meiru fé hefur verið varið til vetrarþjónustunnar en fjárveitingar leyfa.

Halli er á vetrarþjónustunni sem ekki var bættur á fjáraukalögum 2008. Í ljósi þess og almenns niðurskurðar ákvað yfirstjórn Vegagerðarinnar að nauðsynlegt væri að fara í öllu eftir snjómoksturreglunum og beita aðhaldi einsog kostur er. Ekki er heldur útlokað að skerða þurfi þjónustuna frá því sem nú er.

Hjá Vegagerðinni er mönnum ljóst að vegfarendur og landsmenn allir gera eðlilega auknar kröfur um bætta þjónustu á vegakerfinu. Vilji er til þess að bæta þjónustuna en það verður ekki gert án fjármagns."

Sigurður Hreinsson segir í athugasemd við síðustu færslu mína; "Ég las það í skýrslu frá árinu 2005 að snjómoksturskostnaður á Dynjandisheiði væri áætlaður 8,1 milljón á ári.  Í annari skýrslu kemur fram að meðaltals fjöldi mokstursdaga á Dynjandisheiði væru 16 á ári en heiðin er að meðaltali lokuð 120 daga á ári."

Miðað við að þessar upplýsingar séu réttar má finna út að meðaltalskostnaður við einn mokstursdag á Dynjandisheiði sé rétt rúm hálf milljón en það er sú upphæð sem ég setti einmitt spurningarmerki við í síðustu færslu minni. Mér þætti fróðlegt að sjá í hverju þessi gríðarlegi kostnaður liggur og hversu mikið ódýrara væri að hafa sömu starfsmenn og sinna mokstrinum sitjandi inni á kontór að drekka þunnt kaffi.

En gott og vel, vegagerðin er sem sagt loksins farin að fylgja þeim reglum sem meina þeim að moka. Er þeim líka skylt samkvæmt sömu reglum að ljúga að vegfarendum eða gera þeir það einungis til að firra sig ábyrgð? Við vitum að daginn áður en ég fór yfir heiðina höfðu fleiri bílar keyrt hana á leið til Ísafjarðar. Í dag fór svo vinur minn yfir heiðina á Subaru Legazy. Sökum hlýinda og rigninga síðustu daga er heiðin auðveldari yfirförum nú heldur en þegar ég fór um hana. Hvað sem þessu líður og þrátt fyrir ábendingar vegfarenda sem farið hafa um heiðina þá hefur vegagerðin enn ekki séð ástæðu til þess að breyta upplýsingum um ástand veganna. Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar eru enn sagðar ófærar.
Hvaða hvatir liggja þarna að baki? Vilja þeir með þessum blekkingum reyna að koma í veg fyrir að kröfur um tíðari mokstur verði algengari?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband