Glædelig jul og godt Tub´år

Mig langar til að byrja á því að óska aðstandendum Skutuls til hamingju með nýja vefinn. Enn sem komið er þá er þetta afskaplega rauður og ísfirskur hópur sem kemur að vefnum. Ekki það að mér finnist eitthvað athugavert við það, síður en svo. mér finnst það hinsvegar alveg tilvalið fyrir svona vef að að honum komi fólk frá sem flestum kjörnum kjálkans. Ég efast ekki um að það verði ráðin bót á þessu þegar vefurinn hefur náð fótfestu.

Þá að skólanum.
Ég hef ekki verið sérlega hrifinn af þema síðustu tveggja vikna. Við erum búin að vera að kynna okkur "hreyfingar" frumefna, og lita, túlka hluti og málverk með hreyfingum. Þetta er mér ekki að skapi. Ég reyni engu að síður að nálgast þetta af opnum hug og hafa gaman af. Ole segir þetta mikilvægasta tímabil skólagöngunnar. Ég er farinn að sjá betur hvað hann meinar.
Hef ennþá mestar mætur á acrobat tímunum, býst við að þeir verði í uppáhaldi eitthvað áfram. Í það minnsta þar til kemur að Storytelling og/eða Clown tímabili námsins. Að standa á höndum og beygja mig yfir beina fætur til að snerta á mér tærnar eru ekki lengur fjarlægir draumar. Get reyndar ekki enn snert tærnar en á orðið ekki langt í það. Brúin er ennþá minn helsti óvinur. Ég stend fast á því að kvenlíkaminn hentar betur til þessara stellingar heldur en karllíkaminn.

 Á föstudag skellti ég mér á tónleika í Stúdentahúsinu á Köbmagegade. Í fylgdarliði mínu voru 3 samnemendur úr skólanum, þá Benni, Ulrika og Karen.  Hljómsveitir kvöldsins voru tvær. Solaarsem spilaði einhverskonar sígaunaskotið þjóðlagagleðipönkrokk undir smá miðjarðarhafsáhrifum, mjög hressandi og skemmtileg framkoma hjá þeim. Svo var það hljómasveitin José, sem að eigin sögn spilar rokk í sinni hreinustu mynd. Taktmikil og hröð lög sem rifu mann með sér. Söngkonan hafði sterka og skemmtilega nærveru og trommuleikarinn fór algjörlega hamförum í öllum sex trommusólóunum sem hann tók, þar af voru þrjú í uppklappslaginu. Ég hef séð annan eins lokakafla hjá hljómsveit.
Um það bil klukkustund áður en tónleikarnir hófust þá streymdu inn ungmenni í einhverskonar bláum og hvítdoppóttum jólasveina  og sveinku búningum. Fólkið var vopnað kössum af jólabjór Tuborg.Tuborg_julebryg_140 Á Föstudag var nefnilega J-dagurinn. En það er útgáfudagur jólabjórsins og er þá jafnan mikið um dýrðir í  borginni, til dæmis voru gosbrunnar Striksins fylltir af froðu sem eflaust hefur verið ætlað til að minna á bjórfroðuna. Sala bjórsins hófst á slaginu 20:59 og hið ógeðfellda og afskræmda stef sem er notað til að kynna bjórinn fékk að hljóma í góðan hálftíma á meðan slegist var um að koma höndum á flöskubjórana sem bláklæddu ungmennin dreifðu um staðinn.


Á heimleiðinni þurfti ég að þræða Istedgade, einu sinni sem oftar, til að ná næturvagninum heim. Ég veitti því athygli að vændiskonum í götunni hefur stórfækkað, varð var við fleiri Íslendinga. Eflaust finna þær fyrir kulda eins og flestir aðrir. Dúnúlpur eru kannski ekki beint söluvænlegar pakkningar. 
Sem ég gekk fram hjá hópi fólks neðarlega í götunni  heyrði ég einn úr hópnum ávarpa annan með nafninu Mugi. Ég gældi við þá hugmynd að spyrja eftir Mugison en gerði mér fljótt grein fyrir líkunum á mjög takmörkuðum undirtektum slíkrar hótfyndni og hélt því fastast áfram göngu minni.

Þetta er Ársæll Níelsson sem bloggar frá Kaupmannahöfn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta

Ég a vin sem bjó út í Danmörku í svolítinn tíma og hann einmitt umturnast þegar jólabjórinn kemur í ríkið hérna heima. Ég hef aldrei náð því af hverju þetta er svona mikið mál hjá honum, but now I know.

Marta, 5.11.2007 kl. 11:39

2 identicon

Sæll leiklistarfóstur sonur sæll, gaman að lesa þennan pistil því þetta rifjar upp gamla og góða tíma þegar ég var að stúdera þarna fyrir 12 árum. Og alveg er ég nú með þér í því að þetta málverka og arkitekta þema fannst mér nú ekkert sérrílagi skemmtilegt, man að við áttum t.d. að túlka stíl einhvers málara við tókum Turner og fengum gott komment en mig minnir nú samt að engin hafi fattað hvað við vorum að gera. En stundum þykir það nú líka þá einmitt vera list. Samt sem áður er þetta satt hjá meistara vorum Óla frá Brekku þetta er mjög mikilvægur tími í skólanum einsog reyndar allir dagar. Varðandi akrobatið þá get ég nú sagt þér að brúinn var einmitt frekar slök hjá mér svona á við einbreiða vestfirska brú. Gangi þér allt í haginn drengur minn og bið að heilsa meistaranum.

Elfar Logi Hannesson (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 17:02

3 Smámynd: Ársæll Níelsson

Takk fyrir það, Logi. Ég skila kveðjunni.

Ársæll Níelsson, 10.11.2007 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband